Frá Sjóðnum góða
Sjóðurinn góði var stofnaður 2008 í kjölfar bankahrunsins. Sjóðurinn er samstarfverkefni Rauða krossins, félagsþjónustunnar í sveitarfélögum í Árnessýslu, kirkjusókna í Árnessýslu, Hjálparstarfs kirkjunnar, ýmissa kvenfélaga og Lionsklúbba.
Hlutverk sjóðsins góða er að styrkja einstaklinga og fjölskyldur sem standa höllum fæti og eiga ekki fyrir nauðþurftum fyrir jólin og einnig á vormánuðum fyrir fermingar. Starfshóp skipa fulltrúar áðurnefndra aðila sem sjá um að skipuleggja umsóknarferlið og annast úthlutun. Stuðst er við viðmið Hjálparstofnunar kirkjunnar varðandi mat á umsóknum. Fyrir jólin 2024 bárust 284 umsóknir og úthlutað var úr Sjóðnum fyrir um 13.000.000. Úthlutunin og aðstoðin væri ekki möguleg nema vegna allra þeirra gjafa sem berast Sjóðnum góða frá einstaklingum, félagasamtökum, stofnunum og verslunum bæði í formi peninga og jólagjafa. Sjóðurinn góði færir öllum þeim sem með einum eða öðrum hætti hafa styrkt hann hugheilar þakkir fyrir. Án ykkar stuðning væri ekki mögulegt að halda úti svo öflugri samfélagsaðstoð.